Færsluflokkur: Bloggar

Af hverju kýs ég ekki Katrínu Jakobs?

Meðal vina minna er dálæti mitt á Katrínu Jakobsdóttur vel þekkt. 

Ég hef ævinlega gengið undir högg fyrir hana þegar fólk hefur rakkað niður persónu hennar.

Þó er langt frá því að ég hafi verið eða sé samþykkur pólitískum ákvörðunum hennar.

Sem sagt, mér finnst Katrín Jakobsdóttir frábær persóna, - af hverju kýs ég hana þá ekki?

Góða skýringu á því má finna í þekktum spakmælum. „Segðu mér hverjir vinir þínir eru, og ég skal segja þér hver þú ert, og líka „Hver dregur dám af sínum sessunauti.“

Katrín er vissulega sterkur frambjóðandi, en ekki nógu sterk tel ég til að sleppa óskemmd frá þeirri vanhelgu sambúð, sem hún valdi sér við mykju-dreifarana, sem valsa að vild sinni og ausa úr sér á verndarsvæði Moggans. Blaðinu til skammar og ærlegum lesendum þess til ama.

Með þeirri sambúð varð hún að mínu viti vanhæf sem forseti Íslendinga. Það er hennar ógæfa.

Hennar bíða líklega sömu örlög og skjaldbökunnar sem ferjaði sporðdrekann á bakinu.

Dýrmæt þekking Baldurs

Sem betur fer fyrir okkur kjósendur þá er fleira gott fólk í boði en Katrín Jakobsdóttir.

Sá frambjóðandi sem mér þykir vænlegastur er Baldur Þórhallsson.

Í mín eyru er Baldri lýst þannig af þeim sem þekkja vel til hans, að hann sé drenglundaður og umhyggjusamur einstaklingur, afar vel greindur og með sérþekkingu, sem hentar vel forseta.

Hann er sérmenntaður um stöðu smáríkja í heiminum. Leiðtogar smáríkja gætu því, ef þannig ber til, leitað í smiðju forseta Íslands eftir þekkingu, og hollráðum um hagsmuni smáríkja.

Samkynhneigð

Allt eru þetta góðir kostir sem Baldur býr yfir. Þá er ótalinn sá þáttur í hans fari sem snertir fjölda fólks um allan heim.

Sá þáttur varðar miklu fyrir fjölskyldur og fólk ,sem er niðurlægt, ofsótt og smánað og limlest, fyrir það eitt að vera samkynhneigt.

Allt það fólk, - hvar sem er í veröldinni, - mun finna styrk og fyrirmynd í Baldri þórhallssyni.

Það getur þá sagt með stolti; forseti Íslands er líka samkynhneigður.

Kosning Baldurs Þórhallssonar mun vekja mikla athygli. Hún segir við heiminn:

Svona eru Íslendingar þeir virða friðhelgi og rétt allra til einkalífs, eins og stjórnarskrá þeirra boðar.

Kosning hans eikur umburðarlyndi og styrkir stöðu jaðarsettra einstaklinga.

Sú staðreynd ein og sér verður mér, og vonandi fleiri kjósendum, kærkomið tækifæri til að leggja ofsóttu fólki lið með þeim hætti, að kjósa Baldur sem forseta Íslands.

Þannig geta Íslendingar orðið fyrirmynd um réttsýni og mannvirðingu og kærleika.


Sauðkindin - listir og Mogginn

Vera kann þegar sauðkindin þreyir þorrann njóti hún minninga um gróna haga,  sól í heiði og svala vindsins. Um það veit ég ekkert, en hitt veit ég, að aldrei getur hún deilt þeim tilfinningum til annarra. 

Beethoven gat ekki látið okkur  skynja hvernig tónarnir ómuðu í huga hans. 

Hann gat þó efnisbundið þá með bleki á blað og skapað listaverk, sem í aldir hafa nært mannsálina og aukið þroska hennar og sköpunarmátt. 

Listaverk hvort sem eru skrifuð orð eða nótur á blað,  litir á fleti eða form í stein,  eru árangur af viðleitni einstaklings að efnisbinda hugsun og tilfinningu. Það heitir sköpun.                               

Það sem mest skilur milli sauðkindarinnar og mannkindarinnar er hæfileikinn að skapa.

Sköpunargáfan er uppspretta allrar menningar og tækniafreka mannkyns.

Strax í bernsku sést að það er í eðli manna að skapa. Snjókallinn með gulrótarnefið.

Blómum skrýddar drullukökur og myndir og textar á blaði, og endalausar breytingar á uppröðun húsgagna og skrautmuna.   Allt eru það afleiðingar þess að efnisbinda hugsanir.

Þannig er listaverk, Það veldur skynjun sem vekur upplifun, sem við köllum list.

Dæmi: Hópur fólks horfir á listaverk og sumir segja; hvaða hryllingur er þetta?

Aðrir segja; mikið er þetta yndislega fallegt.

Þetta segir okkur að list er upplifun þeirra sem skynja, ekki síður en þeirra sem skapa.

Uppeldisfræðingar fullyrða að besta aðferðin  til að þjálfa og þroska sköpunargáfuna, sem skilur milli manns og skepnu,  sé listaiðkun og listaneysla.

Líklega er sköpunargáfan dýrmætasti eiginleiki Íslensku þjóðarinnar. Hámenntaðir hagfræðingar hafa sannað, að víðfræg listaiðkun á Íslandi gefur af sér verðmæti sem mælast í ævintýralegum stærðum, á annað hundruð milljarða. Það jafngildir að selja eitt stykki Íslandsbanka á hverju ári – takk fyrir.  Ríkssjóði munar um margt sem smærra er. 

Listafólk á Íslandi er því sjálfbær gróðavænleg auðlind, sem gáfulegt er að rækta.

Þá er ótalið það sem aldrei verður metið til fjár. Áhrifin af  upplifun listarinnar.  Þau áhrif eru viðvarandi allsherjar heilun.  Þau örva sköpunargáfu og andlega getu íslendinga. 

Vel meinandi ráðherra

Lilja Alfreðsdóttir hefur í mörgu reynst góður ráðherra.  Hún hefur beitt sér fyrir ýmsum tímabærum og farsælum framfaramálum.

Mörg verk hennar minna okkur á, að samvinnustefnan og jafnaðarstefnan eru sitt hvor greinin á einum og sama stofni félagshyggjunnar.

Nú hefur Lilja kynnt áform sín um aukin listamannalaun. Það er góð fjárfesting.

Sumt fólk er þó svo smátt, að það sér ekki út yfir röndina á tíkallinum sem því er snúið á.

Það er samgróið þeirri skaðlegu trú, að aldrei verði bókvitið í askana látið.  Nú hefur það fundið sálufélaga innan Sjálfstæðisflokksins. Þar safnast það í klíkur og hefur áhrif.

Í þessu máli ber að benda á skýr skil milli Sjálfstæðisflokksins og Morgunblaðsins.

Mogginn hefur alla sína tíð fjallað mikið um listir og verið þar dýrmæt fyrirmynd.

                                     Birgir Dýrförð


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband