"Guð minn góður þetta er alvöru hestur“

Einu sinni fyrir langa löngu á sunnudegi gerðist ævintýri í litlum bæ á landsbyggðinni. Fólk sem var að ganga eftir helstu götunni í bænum, varð vitni að undarlegum atburði. 

Stórt hús var við götuna við hliðina á kirkjunni. Stóra húsið var úr timbri og stóð á steyptum kjallara. Fyrir miðju húsinu voru miklar og breiðar tröppur sem lágu upp á timburpall með handriði, og tvíbreiðum dyr.  Öll var smíðin úr þykkum öflugum plönkum. 

Þó hestaeign væri algeng í plássinu, kom það samt fólki á götunni afar spánkst fyrir sjónir, að sjá fullorðinn mann vera að bisa við að fá hest með múl til að ganga upp tröppurnar, og það sem meira var honum tókst það og hurfu þá báðir hestur og maður inní húsið. 

Bæjarbúum var kennt að sýna þessu húsi sérstaka tillitsemi í allri umgengni. Það helgaðist af því, að húsið var sjúkrahús bæjarbúa og alls héraðsins. Fólk horfði því í mikilli undrun á tiltækið og spáði í hvaða helvítis hálfviti þetta væri. 

Undrunin varð þó meiri, og jafnvel óttablandin þegar fólkið áttaði sig á því, að „helvítis hálfvitinn“ var enginn annar en héraðslæknir þess. Það var vissulega kvíðvænlegt ef læknirinn sjálfur væri að tjúllast eða verða algalin. 

Allt skýrðist þetta þó síðar. Þarna var á ferðinni Friðrik Friðriksson héraðslæknir. Hann var þekktur að því að binda ekki bagga sína sömu hnútum og aðrir. Hann gat stundum verið stríður í viðmóti og svörum, en þegar þess þurfti var hann afar nærgætin, hlýr og natinn við sjúklinga. 

Á þessum tíma lá á spítalanum roskinn Skagfirðingur með fjarlæg fjölskyldutengsl. Ljóst var að þar yrði hans síðasta vist. Friðrik sat og ræddi oft og tíðum við þann mann. Báðir voru þeir hestamenn, og tal þeirra því oft um hesta. Þá kom fram að Skagfirðingurinn harmaði að eiga þess ekki kost, að strjúka hesti og kveðja og þakka besta yndisgjafanum í lífi sínu, - það yrði gaman. 

Hinsta óskin 

Og það var einmitt það sem var að gerast, Friðrik var að uppfylla síðustu ósk Skagfirðings, að strjúka hesti og finna mjúkan flipa taka brauð úr lófa sér. 

Í síðari veru minni á Sauðárkróki kynntist ég Friðriki ágætlega. Fyrst þegar við sátum saman í Bygginganefnd og enn betur eftir að ég varð rafvirki Sjúkrahúss Skagafjarðar. Ég spurði hann um söguna af hestinum, og hvort sjúklingurinn hefði ekki orðið hissa. Hann varð mjög glaður en lítið hissa, hann vissi vel hvað hægt er þegar hestur treystir manni. 

Stúlka sem Friðrik bað að fara í eldhúsið og biðja um rúgbrauð, hún varð mjög hissa. Guð minn góður ert þetta í alvörunni þú?  Þegar ég sá þig koma með hestinn eftir ganginum kleip ég mig fast í handlegginn ég hélt mig væri að dreyma, Guð minn góður þetta er alvöru hestur. Svo rauk hún í eldhúsið og kallaði hátt mig vantar rúgbrauð, mig vantar rúgbrauð, ráðskonan spurði hvað er að þér manneskja. Hann Friðrik læknir sendi mig eftir rúgbrauði, hann ætlar að gefa það hesti sem er frammi á gangi.  Ráðskonan hvesti sig, hvers konar bull er þetta. Ég get svo Guðs svarið, að hann Friðrik var með hest sem hann fór með inn á stofu tvö, þeir eru þar báðir núna. Jesús minn. 

Ráðskonan tók nú málið í sínar hendur og fór sjálf með rúgbrauð á stofu tvö. Þar sat yfirlæknirinn brosandi í stól við höfðagafl rúmsins, og gamli Skagfirðingurinn klóraði báðum höndum um höfuð hestsins, og ljómaði alsæll. 

Í gamla daga þótti þetta falleg saga. Í dag yrði allt vitlaust yfir svona atviki. Lækninum vísað tímabundið úr starfi. Heimagerðir þjóðfélagsverkfræðingar, sem hafa klárað alla villukvóta sína myndu fylla vefsíður, og vera kallaðir í Kastljós og Silfrið og MAST fengi aukafjárveitingu. 

Köttur úti í mýri / setti upp á sér stýri / úti er ævintýri. 

Birgir Dýrfjörð, rafvirkjameistari.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband