Skagfirðingur skýr og hreinn skáld og listamaður

Það var haustmorgun á þeim árum er Kristján Eldjárn bjó á Bessastöðum, og Viðreisnarstjórnin sat að völdum, að ég var staddur á stéttinni hjá Fiskiðjunni á Sauðarkróki ásamt Sigurði Stefánssyni, jafnaðarmanni og hjartalagskrata.

Sigurður var skarpgreindur og mikill húmoristi en aldrei illkvittinn.

Hann sagði mér þarna á stéttinni að til hans hefði komið í gærkveldi að gista, vinur hans og æskufélagi, Mangi á Vöglum.

Magnús á Vöglum var skáldbóndi og fágætur kjörviður í drumbaskógi meðalmennskunnar.  Hann hafði dálæti á Sjálfstæðisflokknum og á sérstökum tímamótum flutti hann foringjum flokksins dýrar drápur, að fornum hætti.

Lögg á pela

  “Ég átti,”  sagði Sigurður,  „lögg í koníaksspela sem við kláruðum félagarnir. Upp úr klukkan 10 sagði Mangi: Jæja vinskapur nú þarf ég að fara að hátta og ræða við drottinn.“

 Magnús var þekktur að þeim sið sínum að bæna sig upphátt og upplýsa Drottinn um ýmsar sorgir og álitamál í dagsins önn.  Bar þá margt á góma, sér í lagi ef hann var aðeins hreifur af víni. 

Veggir í húsi Sigurðar voru trégrind klædd með panel og því vel hljóðbært milli herbergja. Að auki lá Magnúsi oftast hátt rómur.

Skrafað við Alföður

Hann ræddi nú mörg vandamál samtímans við drottinn og heyrðist það vel um húsið. 

Eftir margar bænir og miklar skýringar sagði hann að lokum: “Svo bið  ég þig Drottinn minn að blessa forsetann okkar, og blessaðu Drottinn minn ríkisstjórnina okkar, og blessaðu  alþingismennina okkar”,  þá þagnaði hann við, og sagði svo  “nei annars Drottinn, slepptu  árans framsóknarmönnunum”,  nú kom drjúg þögn, þá sagði Mangi stuttur í spuna:  “Habbðu ekki áhyggjur af því Drottinn, seiggðu þá bara að ég, hann Magnús á Vöglum hafi sagt það”.

Svona eru Skagfirðingar höbbðingjadjarfir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband