Apotekarinn og þjófurinn

Ole Bang var apotekari á Sauðárkróki. Við vorum þar saman í framtalsnefnd. Verklagið var þannig að tveir nefndarmenn fóru yfir hvert framtal. Við Bang vorum þar saman við borð og töluðum mikið saman, ekki hvað síst um hagi þeirra einstaklinga, sem við í hvert sinn fjölluðum um. Bang sagði mér þá sögu sem ég vil segja hér. Hún er ljúf mannkostalýsing um Ole Bang. 

Eins og strompur 

Bang var stórreykingarmaður og fastheldinn og sérvitur um tegundir af sígarettum. Á stríðsárunum vandi hann sig á að reykja Amerískar Old Gold sígarettur. Þegar til þess dróg að herinn færi þá hafði hann áhyggjur af, að Tóbakseinkasalan yrði ekki með Old Gold sígarettur. 

Ole Bang var forsjáll maður og sem lyfsali hafði hann veruleg samskipti við herinn og ráðamenn hans. Þau góðu samskipti leiddu til þess, að áður en herinn fór fékk Bang mikinn lager af Old Gold sígarettum, sem hann seldi ekki. Þær fóru í tvær geymslur í kjallaranum í Apoteki Sauðárkróks. 

Nokkru síðar ákvað Bang að lagfæra geymslurnar í kjallaranum. Til þess fékk hann hagleiksmann í plássinu. Ég kalla hann Jonna, hann var grannur og ekki hár í lofti. Honum fylgdi það hvimleiða slúðurorð, að eitt og annað sem fólk hafði tapað fyndist stundum hjá honum. 

Jonni var í margra mánaði að endurgera allan kjallarann. Þá þurfti meðal annars að rífa aðra geymsluna fyrir Old Gold sígaretturnar og dreifa kössunum með kartonunum inn á milli annars varnings þar niðri.

Til að gera þessa sögu stutta er best að segja frá því að Bang fannst að það fækkaði mikið kartonum af sígarettum í kjallaranum. Ekkert sagði hann þó að sinni. Hann tók það ráð að telja kartonin í opnum kassa og gá hvort eitthvað breyttist þegar Jonni færi út. Það gerðist þegar Jonni fór í mat, kaffi og í lok vinnudags. Þegar hér var komið var lagerinn úr fyrri geymslunni nánast búinn. Jonni vissi ekki um hina geymsluna. 

Vanheilög viðskipti 

Þá tók Bang sig til og talaði við Jonna. Efnislega man ég samtalið svona; „Jonni minn“ sagði Bang. „Ég er í dálitlum vandræðum með sígarettur. Ég vil helst reykja Old Gold sígarettur og ég fékk nokkuð af þeim af Ameríska hernum, og það gerðu áreiðanlega margir fleiri en ég. Nú er ég er að verða búinn með Old Gold pakkana mína. Því datt mér í hug Jonni, að maður eins þú sem þekkir svo marga og ferð svo víða getir kannski hjálpað mér að finna einhverja sem ættu og vildu selja mér Old Gold.“ 

Ég vissi ekki hvernig Jonni mundi bregðast við. En ég gleymi ekki hvernig það var. Hann leit til mín pírði augun og hrukkaði ennið, eins og hann væri djúpt hugsi og sagði: Ja þegar þú nefnir það Bang þá detta mér í hug einn jafnvel tveir menn, ég vil nú ekki nefna þá en ég skal skoða málið. Eftir nokkra daga kom hann með tvö karton af Old Gold. Hann sagðist hafa lofað manninum að segja ekki hvar hann hefði fengið tóbakið. Jonni lét í það skína að meira væri til, og annar maður ætti sennilega líka Old Gold. 

Enga löggu 

Löngu eftir að Jonni hafði lokið vinnu í kjallaranum var hann þó að útvega Bang sígarettur. Ég spurði Bang af hverju léstu ekki lögguna sækja tóbakið? Það var ekki hægt Birgir. Þá hefði ég orðið að kæra. Og hvað með það? Hváði ég. Þá hefðu allir í bænum vitað um málið, og það hefði verið svo sártt fyrir börnin hans og konuna, sem eru saklaus. 

Þannig keypti þessi einstaki gæðamaður sína eigin vöru af þjófnum, sem stal henni frá honum. Það gerði hann til þess eins, að hlífa saklausum börnum frá þeim viðvarandi sársauka að allur bærinn vissi, og smjattaði á, að pabbi þeirra væti þjófur. 

Ljúfmennið Óli Bang var engum manni líkur.

Höf. BirgirDýrfjörð, rafvirkjameistari.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband