Af hverju kýs ég ekki Katrínu Jakobs?

Meðal vina minna er dálæti mitt á Katrínu Jakobsdóttur vel þekkt. 

Ég hef ævinlega gengið undir högg fyrir hana þegar fólk hefur rakkað niður persónu hennar.

Þó er langt frá því að ég hafi verið eða sé samþykkur pólitískum ákvörðunum hennar.

Sem sagt, mér finnst Katrín Jakobsdóttir frábær persóna, - af hverju kýs ég hana þá ekki?

Góða skýringu á því má finna í þekktum spakmælum. „Segðu mér hverjir vinir þínir eru, og ég skal segja þér hver þú ert, og líka „Hver dregur dám af sínum sessunauti.“

Katrín er vissulega sterkur frambjóðandi, en ekki nógu sterk tel ég til að sleppa óskemmd frá þeirri vanhelgu sambúð, sem hún valdi sér við mykju-dreifarana, sem valsa að vild sinni og ausa úr sér á verndarsvæði Moggans. Blaðinu til skammar og ærlegum lesendum þess til ama.

Með þeirri sambúð varð hún að mínu viti vanhæf sem forseti Íslendinga. Það er hennar ógæfa.

Hennar bíða líklega sömu örlög og skjaldbökunnar sem ferjaði sporðdrekann á bakinu.

Dýrmæt þekking Baldurs

Sem betur fer fyrir okkur kjósendur þá er fleira gott fólk í boði en Katrín Jakobsdóttir.

Sá frambjóðandi sem mér þykir vænlegastur er Baldur Þórhallsson.

Í mín eyru er Baldri lýst þannig af þeim sem þekkja vel til hans, að hann sé drenglundaður og umhyggjusamur einstaklingur, afar vel greindur og með sérþekkingu, sem hentar vel forseta.

Hann er sérmenntaður um stöðu smáríkja í heiminum. Leiðtogar smáríkja gætu því, ef þannig ber til, leitað í smiðju forseta Íslands eftir þekkingu, og hollráðum um hagsmuni smáríkja.

Samkynhneigð

Allt eru þetta góðir kostir sem Baldur býr yfir. Þá er ótalinn sá þáttur í hans fari sem snertir fjölda fólks um allan heim.

Sá þáttur varðar miklu fyrir fjölskyldur og fólk ,sem er niðurlægt, ofsótt og smánað og limlest, fyrir það eitt að vera samkynhneigt.

Allt það fólk, - hvar sem er í veröldinni, - mun finna styrk og fyrirmynd í Baldri þórhallssyni.

Það getur þá sagt með stolti; forseti Íslands er líka samkynhneigður.

Kosning Baldurs Þórhallssonar mun vekja mikla athygli. Hún segir við heiminn:

Svona eru Íslendingar þeir virða friðhelgi og rétt allra til einkalífs, eins og stjórnarskrá þeirra boðar.

Kosning hans eikur umburðarlyndi og styrkir stöðu jaðarsettra einstaklinga.

Sú staðreynd ein og sér verður mér, og vonandi fleiri kjósendum, kærkomið tækifæri til að leggja ofsóttu fólki lið með þeim hætti, að kjósa Baldur sem forseta Íslands.

Þannig geta Íslendingar orðið fyrirmynd um réttsýni og mannvirðingu og kærleika.


« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 Smámynd: Loncexter

Mér finnst eins og Guði sé orðið misboðið hvernig siðleysið er að heltaka íslendinga, og hafi nú loks ákveðið að grípa í taumana.

Hann gat komið á plágum í egyptalandi og gert mörg önnur undur. Sennilega verður eitt af því nýjasta úrslit næstu kosninga .  amen

Loncexter, 8.5.2024 kl. 16:22

2 identicon

Sæll Birgir. Ég er mikill aðdáandi pistla þinna um listir og samfélagsmál. Kannski er það þess vegna sem ég finn mig knúna til að skjóta hér að athugasemd. Mér finnst nefnilega eins og hér sé hrapað að ályktunum um Katrínu Jakobsdóttur og henni ætlaðir hlutir sem engin gögn styðja. Það er að mínum dómi ekki maklegt að spyrða Katrínu á nokkurn hátt saman við blaðamenn Morgunblaðsins, enda fékk hún sjálf sérlega harða útreið á sama miðli fyrst allra frambjóðendanna, þótt nú virðist flestir vera búnir að gleyma því. Í fyrsta Spursmálaþættinum eftir að kosningabaráttan hófst voru viðkvæmustu og óvinsælustu málin sem hún hefur átt í á sínum pólitíska ferli dregin fram og slegið upp í fyrirsagnir, en af þeim mátti helst ráða að Katrín væri hálfgerður barnamorðingi (vegna þess að hún telur rétt að konur fái sjálfar að stjórna frjósemi sinni) og hefði að auki komið illa fram við Geir Haarde, gerst sek um undirlægjuhátt í IceSave-málinu og svo má lengi telja. Þegar aðrir frambjóðendur voru svo teknir fyrir á sama hátt virtust stuðningsmenn þeirra hafa gleymt þessu. Ég frétt af mörgu fólki í íhaldsamari kantinum (kjarnalesendur Morgunblaðsins) sem hætti við að styðja Katrínu vegna þessara frétta Morgunblaðsins. Hitt er svo grundvallaratriði, alls ótengt ákveðnum blaðamönnum Morgunblaðsins, að jafnvel þótt Katrín eigi sér aðdáendur þvert yfir hið pólitíska svið, gerir það hana ekki að lakari frambjóðanda (jafnvel þótt misjafn sauður sé í mörgu fé). Þvert á móti. Það þýðir heldur ekki að hún eigi persónulega vingott við allt það fólk. Á tíma múgæsingar, skautunar og þjóðflokkavæðingar þurfum við einmitt á manneskjum eins og henni að halda, manneskjum sem fólk af ólíku sauðahúsi metur að verðleikum, þrátt fyrir skoðanamun. Jafnvel þótt okkur sjálfum líki ekki persónulega við alla aðra sem styðja hana. Að því sögðu er Baldur prýðilegur kostur - þótt Katrín fái sannarlega mitt atkvæði. Nú er sú staða uppi í þjóðfélagsumræðunni að stuðningsmenn Katrínar eru beinlínis kallaðir skrímsli. Mér dytti ekki í hug að gera hina frambjóðendurna persónulega ábyrga fyrir þeim gífuryrðum, eða ætla þeim persónulegan vinskap við svörtu sauðina. Með vinsemd og virðingu, Halla

Halla (IP-tala skráð) 8.5.2024 kl. 21:41

Bæta við athugasemd

Hver er summan af fimm og fimmtán?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband